Nú hefur komið í ljós að 47 börn á leikskólaaldri létust í árekstri rútu og lestar í Egyptalandi, eftir því sem fylkisstjóri Assiut-fylkis í Egyptalandi segir og AFP-fréttastofan greinir frá.
„Tala látinna er nú komin í 47 og 13 börn eru slösuð,“ sagði fylkisstjórinn í samtali við egypska ríkissjónvarpið.
Rútan var með 60 börn á aldrinum fjögurra til sex ára innanborðs og lenti fyrir lest þegar hún var á ferð sinni þar sem vegur og lestarteinar mættust.
Börnin sem slösuðust eru ekki í lífshættu, að sögn fylkisstjórans. „Það er teymi 45 lækna sem lítur eftir slösuðu börnunum,“ sagði hann.
Forseti Egyptalands, Mohamed Morsi, hefur fyrirskipað forsætisráðherranum, ráðherrum varnarmála og heilbrigðismála sem og fylkisstjóranum „að bjóða fjölskyldum fórnarlambanna alla þá hjálp sem hægt er,“ er haft eftir ríkissjónvarpinu þar í landi.
Samgönguráðherra landsins, Rashad al-Metini, sagði af sér í morgun og sagðist með því axla sína ábyrgð á slysinu. Forsetinn hefur auk þess tekið við afsagnarbréfi forstjóra egypsku járnbrautamálastofnunarinnar.