Fyrirskipaði aðstoð til Palestínu

AFP

Abdullah II., konungur Jórdaníu fyrirskipaði í dag neyðaraðstoð til Palestínumanna á Gaza-svæðinu, sem ísraelski herinn hefur haldið uppi loftárásum á fjóra daga í röð.

Jórdönsku Heshemite-góðgerðarsamtökunum var fyrirskipað að senda „nauðsynlega mannréttindaaðstoð til þeirra Palestínumanna sem nú búa við þjáningar og erfið lífsskilyrði vegna árása Ísraelsmanna“, segir í tilkynningu frá konungshöllinni og AFP-fréttastofan greinir frá.

Abdullah konungur fyrirskipaði jafnframt að gripið yrði til aðgerða til að veita nauðsynlega hjúkrunaraðstoð á svæðinu. Í tilkynningu hallarinnar segir að aðgerðir þeirra miði að því að útvega „alla nauðsynlega hjúkrunaraðstoð fyrir palestínsk börn í ljósi þeirra aðstæðna sem herja á vegna árása Ísraelsmanna.“

Síðan á miðvikudagseftirmiðdegi hafa Ísraelsmenn staðið fyrir loftárásum á allar borgir á Gaza-svæðinu, sem eru allar mjög þéttbýlar og þar sem höfuðstöðvar Hamas-samtakanna er að finna.

Á föstudag sagði konungur Jórdaníu við Hilary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, að hann hefði verulegar áhyggjur af áhrifunum af loftárásum Ísraelsmanna á svæðið allt fyrir botni Miðjarðarhafs.

Ríkisstjórn Jórdaníu, sem gerði árið 1994 friðarsamkomulag við gyðingaríkið, á undir högg að sækja þessa dagana en hækkandi eldsneytisverð þar í landi hefur vakið ófrið meðal íbúa sem í þúsundatali kröfðust afsagnar konungsins fyrir utan konungshöllina í gær.

Abdullah II, Jórdaníukonungur.
Abdullah II, Jórdaníukonungur. AFP
AFP
AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert