Benjamín Netanjahu, forsætisráðherra Ísraels, sagði í morgun að Ísraelar væru reiðubúnir til að herða árásir á Gazasvæðið. Átökin hafa nú staðið yfir síðan á miðvikudaginn.
„Við verðum fyrir þungum árásum frá Hamas-samtökunum og hryðjuverkasamtökum,“ sagði Netanjahu í morgun. „Herinn er tilbúinn til að auka við aðgerðirnar.“
Hann sagðist eiga í viðræðum við ýmsa þjóðarleiðtoga og sagðist kunna að meta skilning þeirra á rétti Ísraela til sjálfsvarnar.
Fréttaflutningur af ástandi mála er nokkuð misvísandi; í morgun var haft eftir háttsettum palestínskum embættismanni að Ísraelar og Palestínumenn væru að ræða um vopnahlé, en ekkert hefur fengist staðfest í þeim efnum.