Hamas-liðar skutu í dag til bana sex menn sem þeir gruna um að hafa njósnað fyrir Ísraelsmenn. Ljósmyndari AFP tók myndir í dag af mönnum á mótorhjólum draga lík á eftir sér um götur Gaza, en líkið er af meintum njósnara.
Útvarpsstöð á Gaza sagði í dag að mennirnir hefðu verið teknir með háþróaðan búnað til að taka myndir og stunda njósnir. BBC segir að sex menn sem Hamas grunar um njósnir hafi verið teknir af lífi.
130 Palestínumenn og fimm Ísraelsmenn hafa fallið síðan átökin hófust. Öll áhersla er nú lögð á að reyna að koma á vopnahléi.