Handtekin vegna ummæla á Facebook

AFP

Indversk kona sem handtekin var vegna ummæla sem hún skrifaði á Facebook segist mjög undrandi á þróun mála.

Shaheen Dhada, sem er 21 árs, var handtekin eftir að hún gagnrýndi það umrót sem varð í Mumbaí í kjölfar dauða hins umdeilda stjórnmálamanns, Bals Thackeray.

Vinkona hennar, Renu Srinivasan, sem „líkaði“ við færsluna, var einnig handtekin. Þær hafa nú verið látnar lausar gegn tryggingu.

Lögregla hefur, að sögn BBC, handtekið margt fólk undanfarið í málum sem gagnrýnendur segja brot á tjáningarfrelsi.

Dhada sagði í samtali við BBC í dag að hún hefði beðist afsökunar á ummælunum.

„Ég er ekki reið. Ég er ekki sorgmædd, ég er bara hissa. Þetta var mín skoðun og ég er undrandi á því sem gerðist í kjölfar þessara ummæla minna.“ Hún segist hafa beðist afsökunar þar sem hún hafi ekki ætlað að særa tilfinningar neins.

Konurnar voru ákærðar fyrir að hvetja til fjandskapar, haturs og óvilja milli stétta landsins.

Eftir að Dhada skrifaði ummæli sín á Facebook var ráðist á frænda hennar. Níu manns voru handteknir vegna árásarinnar.

Dauði Bals Thackeray varð til þess að allt gekk hægt fyrir sig í Mumbaí um helgina.

Ummælin sem ollu svo miklum usla voru á þann veg að Thackeray væri eins og hver annar maður, hann lifði og hann dó. Ekki væri tilefni til að slökkva á öllu mannlífinu vegna þess að hann væri fallinn frá.

Margir mótmæltu í kjölfar handtökunnar og sögðu stjórnvöld misnota vald sitt.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert