Sænsk kona hefur verið ákærð fyrir vörslu á mannabeinum og hauskúpum en að sögn saksóknara notaði konan hauskúpurnar og beinin í kynferðisathöfnum.
Konan sem er 37 ára að aldri, geymdi að minnsta kosti sex hauskúpur af mönnum, fjölmörg önnur bein og eina mænu í íbúð sinni í Gautaborg, samkvæmt ákæru.
Þar kemur fram að konan hafi notað líkamspartana við kynlífsathafnir en meðal gagna í málinu eru mynddiskarnir „Náriðillinn ég“ og „Mín fyrsta reynsla“. Eins eru ljósmyndir af líkhúsum meðal gagna í málinu en þær fundust á heimili konunnar ásamt bor og líkpokum.
Lögregla segir að hins vegar hafi ekki fundist nein gögn eða sannanir um að konan hafi tekið þátt í að grafa upp lík, að því er fram kemur í frétt TT fréttastofunnar.
Konan var handtekin í september og ákærð í dag fyrir að raska ró hinna látnu sem er brot á hegningarlögum í Svíþjóð og getur varðað allt að tveggja ára fangelsi. Konan hefur viðurkennt að hafa átt gripina en neitar að hafa brotið lög.
Síðastliðið sumar á konan að hafa selt manneskju í Uppsala þrjár hauskúpur og eina mænu. Í Gautaborgarpóstinum er vísað í fyrri orð hennar á netinu um siðferðiskennd og að hún sé reiðubúin til þess að axla ábyrgð á gjörðum sínum og vísar blaðið í orð hennar um að maðurinn hennar fullnægi henni kynferðislega hvort sem hann er dauður eða lifandi.