Ræða vopnahlé

Slökkviliðsmenn á Gazasströndinni berjast við elda í kjölfar sprengjuárása Ísraela …
Slökkviliðsmenn á Gazasströndinni berjast við elda í kjölfar sprengjuárása Ísraela í morgun. AFP

Ráðherrar Ísraelsstjórnar ræddu í morgun um hugmyndir Mohamads Morsis, forseta Egyptalands, um vopnahlé á Gazaströndinni. Meira en 100 hafa nú látist í loftárásum Ísraelsmanna. Shimon Peres, forseti Ísraels, sakar Írana um að kynda undir ófriðnum.

Samkvæmt fréttum ísraelskra fjölmiðla í morgun ræddu ráðherrarnir tvo möguleika; annars vegar að samþykkja vopnahlé eða að hefja landhernað á svæðinu. Engin ákvörðun hefur verið tekin.

Í frétt ísraelskrar útvarpsstöðvar í morgun kom fram að líklegt væri talið að Ísraelar myndu vilja eins til tveggja sólarhringa vopnahlé og að á þeim tíma gætu þeir og Hamas-samtökin samið um langvarandi hlé og hugsanlega yrðu ýmis höft sem Ísraelar hafa komið á á Gazasvæðinu endurskoðuð.

Á ísraelskri sjónvarpsstöð var sagt að líklegt væri að Benjamín Netanjahu, forsætisráherra Ísraels, myndi vilja að vopnahléið gengi í gildi á næsta sólarhring.

Segir Írana vera alheimsvandamál

Shimon Perez, forseti Ísraels, sakar Írana um að kynda undir ófriðnum með því að hvetja Palenstínumenn til að halda áfram loftárásum sínum á Ísrael fremur en að hvetja þá til friðarviðræða. Perez segir írönsk stjórnvöld vera „gengin af vitinu“ og segir Íran vera „alheimsvandamál“. 

Hann hrósar Morsi fyrir viðleitni hans. Peres segir Ísraela ekki eiga annarra kosta völ en að halda loftárásum sínum áfram, þrátt fyrir þann fjölda almennra borgara sem hafi látið lífið, en sagðist halda í vonina um vopnahlé og að ekki kæmi til landhernaðar.

„Viðræðum verður haldið áfram. Þetta reynir á alla aðila, en þessu er ekki lokið og besta leiðin fyrir alla er að árásunum linni,“ sagði Peres.

109 hafa látist

32 Palestínumenn létust í loftárásum Ísraelsmanna í gær.

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, er nú staddur í Kaíró, þar sem hann hvetur til vopnahlés. Khaled Meshaal, leiðtogi Hamas-samtakanna, segir að samtökin séu tilbúin til að fallast á vopnahlé að því tilskildu að Ísraelar aflétti herkví sinni um Gazaströndina.

Susan Rice, sendiherra Bandaríkjanna gagnvart Sameinuðu þjóðunum, sagði í morgun að vopnahlé, sem viðurkennt væri af báðum aðilum, væri forsenda þess að taka mætti yfirlýsingar þeirra alvarlega.

Fjölmargar fjölskyldur á Gaza hafa flúið heimili sín, sumir leita skjóls á suðurhluta svæðisins þar sem árásir eru ekki jafntíðar og annars staðar á Gaza.

Alls hafa 109 Palestínumenn látist í rúmlega 1.350 árásum Ísraelsmanna. 640 eldflaugar Palestínumanna hafa hitt skotmörk í Ísrael, en varnarbúnaður Ísraelshers hefur stöðvað 324 flaugar.

Shimon Peres, forseti Ísraels.
Shimon Peres, forseti Ísraels. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert