Viðræður standa enn yfir

Sprengjukúlur sem Ísraelsher notar í stríðsátökunum.
Sprengjukúlur sem Ísraelsher notar í stríðsátökunum. AFP

Félagi í Hamas-samtökunum sagði í dag að egypskir sáttasemjarar hefðu náð að telja Ísraelsmenn á að samþykkja vopnahlé sem ætti að taka gildi í kvöld. Nú segja egypsk og ísraelsk stjórnvöld hins vegar að ekkert samkomulag hafi verið gert.

„Viðræður standa enn yfir,“ sagði egypskur embættismaður, sem vildi ekki koma fram undir nafni, í samtali við Reuters. Aftur á móti bætti hann því við að egypsk stjórnvöld væru vongóð um að samkomulag myndi nást síðar í dag.

Loftárásir Ísraelar héldu áfram á Gaza í dag, sjötta daginn í röð. Á sama tíma héldu Palestínumenn áfram að skjóta flugskeytum yfir landamærin. Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, heimsótti svæðið í dag eftir að hafa tekið þátt í leiðtogaráðstefnu í Asíu.

Aðgerðir Ísreala hófust í síðustu viku en markmið þeirra er að stöðva flugskeytárásir frá Gaza, sem hafa hæft ísraelska bæi.

Læknar í Gaza segja að 21 Palestínumaður hafi látið lífið í dag. Þá lést ísraelskur hermaður og almennur borgari þegar flugskeyti sprungu skammt frá landamærum Gaza. Þetta segja talsmenn hersins og lögreglunnar í Ísrael.

Þá segja læknar í Gaza að alls hafi 130 beðið bana frá því átökin hófust, meirihlutinn almennir borgarar. Þar af hefur 31 barn látið lífið. Þá hafa fimm Ísraelar látist, þar af þrír almennir borgarar.

Clinton átti að funda með Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísraels, í dag í Jerúsalem. Netanyahu sagði fyrr í dag að Ísrael væri reiðubúið að gera langtímasamkomulag til að binda enda á flugskeytaárásir Palestínumanna.

Hamas-leiðtoginn Khaled Meshaal, sem er í útlegð, sagði í gær að Ísraelar yrðu að aflétta herkvínni á Gaza svo að hægt yrði að semja um vopnahlé.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert