Eini staðurinn sem stendur af sér heimsendi

Franska þorpið Bugarach, sem stendur við samnefndan tind í Pýreneafjöllunum, er eini staðurinn í heiminum sem stendur af sér heimsendann sem spáð er í næsta mánuði.

Samkvæmt heimsendaspá Maya er dómsdagur í nánd, nánar tiltekið þann 21. desember næstkomandi. Hafa yfirvöld í þorpinu ákveðið að takmarka aðgang að þorpinu á tímabilinu 19. til 23. desember og hafa óskað eftir aðstoð franskra stjórnvalda við eftirlit. Óttast þorpsbúar að tugir þúsunda manna komi til með að streyma til þorpsins í þeirri von að lifa heimsenda af.

Mikil náttúrufegurð er á þessum slóðum en íbúar Bugarach eru um tvö hundrið talsins. Þorpið komst í heimsfréttirnar árið 2010 er nýaldarsinnar fóru að tala um væntanlega dómsdag og að Bugarach yrði sá staður á jörðinni sem myndi standa upp úr þegar syndaflóðið færi yfir heimsbyggðina en Bugarach tindur er í 1.230 metra hæð yfir sjávarmáli.

Fjölmargir fjölmiðlar hafa fjallað um mögulegan dómsdag að undanförnu. Meðal þeirra er Guardian, Spiegel og Telegraph.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka