Íranar bera mikla ábyrgð á átökum í Mið-Austurlöndum, ekki síst á Gazasvæðinu. Þetta sagði Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands, í morgun. „Þarna er verið að nota langdrægar eldflaugar, sem fara allt að 75 kílómetra. Þetta eru vopn frá Íran. Íranar bera því ábyrgð,“ sagði Fabius og var þar að vísa til eldflauga Palestínumanna.
„Íranar hafa skipt sér af átökum í Líbanon, Sýrlandi, Írak og á Gazaströndinni. Tilgangur þeirra er ávallt neikvæður,“ sagði Fabius. „Afstaða Írana er sérlega hættuleg fyrir heimsfriðinn.“
Íranar segja Ísraela bera höfuðábyrgð á því hvernig komið er á Gazaströndinni og segja að Ísraela ætti að leiða fyrir dómstóla fyrir stríðsglæpi. Íranar segja að Palestínumenn verði að búa yfir vopnum til að geta varið sig. Þetta sögðu írönsk stjórnvöld í kjölfar fullyrðinga Shimonar Peres, forseta Ísraels, um að Íranar hvettu Palestínumenn til að halda áfram árásum á Ísraela í stað þess að semja um vopnahlé.