Tíu særðust í árás í Tel Aviv

Frá Tel Aviv í gærkvöldi er flugskeyti hafnaði á húsi …
Frá Tel Aviv í gærkvöldi er flugskeyti hafnaði á húsi í borginni. AFP

Að minnsta kosti tíu særðust er sprengja sprakk í strætisvagni í nágrenni varnarmálaráðuneyti Ísraels í borginni Tel Aviv í dag. Segja stjórnvöld í Ísrael að um hryðjuverkaárás hafi verið að ræða.

Sprengjan sprakk á sama tíma og utanríkisráðherra Bandaríkjanna, Hillary Clinton, er í Jerúsalem að ræða við forsætisráðherra landsins, Benjamin Netanyahu, um leiðir til að binda endi á blóðbaðið í og í kringum Gaza undanfarna viku.

Talsmaður almannavarna, Zaki Heller, segir að þrír hinna særðu séu mjög alvarlega slasaðir.  Að sögn lögreglu sprakk sprengjan í strætisvagni í Shaul HaMelech stræti, skammt frá varnarmálaráðuneytinu. Ekki hafa borist nánari fregnir af tilræðinu en sjónvarpsmyndir sýna að rúður hafi sprungið í vagninum og slasað fólk borið á sjúkrabörum. Fjölmargir sjúkrabílar og sjúkraflutningamenn eru á staðnum. Talsmaður Netanyahu segir að um hryðjuverkaárás sé að ræða.

„Sprengja sprakk í strætisvagni í miðborg Tel Aviv. Þetta er hryðjuverkaárás. Flestir hinna slösuðu eru með minni háttar meiðsl,“ skrifar Ofir Gendelman, talsmaður forsætisráðherra á Twitter.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert