Vopnahlé Ísraela og palestínsku Hamas-samtakanna, sem tók gildi í gær, hélt í nótt og í morgun. Íbúar á Gaza fögnuðu ákaft á götum úti. Fólk skaut af byssum upp í loft til að sýna fögnuð sinn og flugeldum var skotið á loft.
Vopnahléssamningurinn, sem fulltrúar Ísraelsstjórnar og Hamas-samtakanna samþykktu í gær, felur meðal annars í sér að Ísraelar eigi að láta af öllum hernaði í lofti, sjó og á landi, þar með talið eru árásir og áhlaup á einstaklinga. Palestínumenn eiga, samkvæmt samningnum, að binda enda á flugskeytaárásir og allar árásir við landamærin.
Þá felur samningurinn í sér að haldi vopnahléið í sólarhring eigi Ísraelsmenn að hefja undirbúning að opnun landamærastöðva við Gaza og hleypa fólki og varningi þar í gegn.
Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir að þetta sé mikilvægur áfangi. „Nú er ögurstund,“ segir Clinton. „Á næstu dögum munu bandarísk stjórnvöld vinna með þjóðum þessa heimshluta að því að styrkja þetta samkomulag.“
Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, lýsti yfir ánægju sinni með aðkomu Mohamads Morsis Egyptalandsforseta sem vann ötullega að því að vopnahléið varð að veruleika. Þá fögnuðu leiðtogar Evrópusambandsins vopnahléinu og lögðu áherslu á stríðandi aðilar yrðu að tryggja að það héldi og koma í veg fyrir að ofbeldi brytist út á ný.
Hamas-leiðtoginn Khaled Meshaal, sem er í útlegð í Kaíró, sagði að Ísraelum hefði „mistekist að ná markmiðum sínum“ og þakkaði Írönum fyrir stuðning þeirra.
Loftárásir Ísraelsmanna hófust fyrir rúmri viku, hinn 14. nóvember, í kjölfar árása Palestínumanna sem voru með því að hefna dráps á Ahmed al-Jabari, yfirmanni hernaðararms Hamas. Ísraelar hæfðu rúmlega 1.500 skotmörk á þessari rúmu viku.
Hamas-samtökin skutu rúmlega 1.500 eldflaugum að Ísrael, en eldflaugavarnarkerfi Ísraelshers tókst að stöðva um 400 þeirra. Að minnsta kosti 155 Palestínumenn létust í átökunum og fimm Ísraelar.