Mikið æði getur gripið um sig í tengslum við „Svarta föstudaginn“ svonefnda, sem er helsti verslunardagur Bandaríkjamanna og kemur beint í kjölfar þakkargjörðarhátíðarinnar. Í verslunarmiðstöð í Texas var maður sleginn í andlitið og brást hann við með að draga upp skammbyssu.
Umrætt atvik átti sér stað í South Park verslunarmiðstöðinni í San Antonio í Texas í gærkvöldi, en sumar verslanir tóku þá forskot á sæluna.
Lögreglan segir að karlmaður hafi gert tilraun til að troðast fram fyrir fólk sem beið í röð í verslun Sears. Aðrir viðskiptavinir voru ósáttir við hegðun mannsins og leiddi það til snarpra orðaskipta. Rifrildið leiddi til þess að maðurinn sem gerðist sekur um að troða sér fram fyrir í röðinni kýldi annan mann í andlitið.
Sjónarvottar sögðu við lögreglu að maðurinn sem varð fyrir högginu hefði í framhaldinu dregið upp skammbyssu og miðað á hinn sem tók til fótanna og faldi sig á bak við ísskáp. Hann náði síðan að komast út.
Lögreglan tekur aftur á móti fram að maðurinn hafi aðeins miðað niður á gólf. Það var hins vegar nóg fyrir aðra viðskiptavini sem forðuðu sér einnig út úr versluninni.
Þá segir lögreglan að ekkert verði aðhafst frekar í máli byssumannsins en hann var með leyfi til að bera skotvopna falið innanklæða.