Leiðtogar ESB frestuðu fundi

Angela Merkel, kanslari Þýskalands og Herman Van Rompuy forseti leiðtogaráðs …
Angela Merkel, kanslari Þýskalands og Herman Van Rompuy forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins á fundinum í Brussel í gær. AFP

Leiðtogar Evrópusambandsins frestuðu í nótt fundi sínum um langtímafjárlög sambandsins fyrir árin 2014 - 2020 fram til hádegis á morgun. Haft hefur verið eftir mörgum þeirra að erfitt gæti reynst að ná samkomulagi.

Fundurinn er haldinn í Brussel og hófst í gær, mörgum klukkustundum síðar en áætlað hafði verið vegna mikils ágreinings um hvernig eigi að verja fjármunum sambandsins. Bretar hafa hótað að beita neitunarvaldi, gangi ESB ekki að kröfum þeirra um niðurskurð í fjárlögunum og Angel Merkel, kanslari Þýskalands, var ekki vongóð í gærkvöldi um að samkomulag næðist.

„Ég tel að við höfum náð nokkrum árangri, en ég efast um að við náum samkomulagi,“ sagði Merkel. Í sama streng tók Francois Hollande, forseti Frakklands. 

Lagði fram nýjar tillögur í gærkvöldi

„Kannski verður þessi fundur langur og flókinn,“ sagði Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins við upphaf fundarins í gær. „Sem betur fer kemur þetta mál ekki upp oftar en sjöunda hvert ár.“

Van Rompuy lagði fram nýjar fjárlagatillögur seint í gærkvöldi. Þær hljóða upp á sömu upphæð og þær fyrri, 972 milljarða evra, en þar er lagt til að fénu sé skipt á annan hátt en í fyrri tillögum, t.d. er þar lagt til að meira fé sé varið til byggðaþróunar og landbúnaðarstefnu.

Frá vinstri: Janez Jansa, forseti Slóveníu, Herman Van Rompuy, forseti …
Frá vinstri: Janez Jansa, forseti Slóveníu, Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, Pedro Passos Coelho, forsætisráðherra Portúgals, Dalia Grybauskaite, forseti Litháen, Angela Merkel, kanslari Þýskalands, Francois Hollande, forseti Frakklands, Jyrki Katainen, forsætisráðherra Finnlands, Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og kanslari Austurríkis, Werner Faymann á fundinum í gær. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert