Leiðtogafundi Evrópusambandsins lauk í dag án þess að samkomulag næðist um fjárlög sambandsins fyrir árin 2014-2020. Ríku löndin í ESB vildu skera niður útgjöld, en á það gátu fátækari lönd sambandsins ekki fallist.
Ekki er ljóst hvert verður næsta skref í deilunni, en leiðtogarnir svara spurningum blaðamanna síðar í dag.
Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs Evrópusambandsins, lagði í vikunni fram málamiðlunartillögu sem fól í sér að útgjöld ESB yrðu 973 milljarðar evra, líkt og í fyrri tillögu en að breytingar yrðu gerðar innan fjárlagarammans sem m.a. fól í sér niðurskurð til landbúnaðarmála. Ekki náðist samkomulag um tillöguna. Francois Hollande, forseti Frakklands, neitaði að samþykkja niðurskurð til landbúnaðarmála og David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði tillöguna hafa í för með sér óhófleg útgjöld.
Spánverjar og Pólverjar eru andvígir niðurskurði á útgjöldum ESB, en báðar þjóðirnar hafa fengið mikla fjármuni til uppbyggingar í löndunum.
Ekki var samstaða milli Frakka og Þjóðverja á fundinum, en það er talið hafa ráðið miklu um að ekkert samkomulag náðist.