Löggjafasamkundan í Úganda mun koma saman innan skamms og greiða atkvæði um það hvort herða eigi viðurlög við samkynhneigð.
Hún er þegar ólögleg í landinu og hafa samkynhneigðir mátt sæta árásum og niðurlægingum hvers konar alla tíð.
Samkvæmt hinu nýja frumvarpi verður hámarksrefsing við samkynhneigð lífstíðarfangelsi.
Mannréttindasamtökin Amnesty international hefur miklar áhyggjur af þróun mála og hafa hvatt þingmenn í Úganda til þess að neita frumvarpinu samþykki.
Frumvarpið verður tekið á dagskrá fyrir áramót. Fjöldi heimsleiðtoga hefur fordæmt framkomu löggjafarvaldsins gagnvart samkynhneigðum og hafa margar þjóðir hótað að draga til baka fjárhagsaðstoð sína við landið.
Finna má ákvæði um dauðarefsingu við samkynhneigð í nokkrum löndum í Afríku og í miðausturlöndum. Þ.e. í Nígeríu, Súdan, Máritaníu, Sádí arabíu og Íran. Því hefur þó ekki verið beitt svo vitað sé til.