Biðjast afsökunar á að hafa vísað gyðingum úr landi

Norska lögreglan baðst í dag afsökunar á því að hafa …
Norska lögreglan baðst í dag afsökunar á því að hafa vísað gyðingum úr landi fyrir sjötíu árum. AFP

Yfirmaður norsku lögreglunnar baðst í dag afsökunar á hlut lögreglunnar í að handtaka og reka úr landi hundruð gyðinga í seinni heimstyrjöldinni. Sjötíu ár eru liðin í dag frá því að Norðmenn vísuðu 532 gyðingum úr landi.

Ríkislögreglustjóri, Odd Reidar Humlegård, biður afsökunar fyrir hönd norsku lögreglunnar í viðtali við Dagsavisen í dag. Var það ríkisstjórn undir forsæti Vidkuns Quisling, sem fyrirskipaði brottvísun gyðinga úr landi. En Quisling stofnaði Nasjonal Samling, stjórnmálaflokk að fyrirmynd þýska nasistaflokksins. Þrátt fyrir að Quisling væri leiðtogi eina stjórnmálaflokksins sem nasistar leyfðu í Noregi eftir hernámið, náði hann ekki að mynda formlega ríkisstjórn, sem reyndar var leiksoppur nasistaflokksins, fyrr en í febrúar 1942. Quisling var tekinn af lífi árið 1945.

Samuel Steinmann, sem er 89 ára, var 19 ára gamall er honum var vísað úr landi, samkvæmt frétt Dagsavisen. Af þeim 532 norsku gyðingum sem var vísað úr landi þennan dag árið 1942 voru einungis tíu enn á lífi í janúar 1943. Steinmann er eini Norðmaðurinn sem lifði af dvöl í fangabúðum nasista í Auschwitz.

Af þeim 2.100 gyðingum sem bjuggu í Noregi í upphafi seinni heimsstyrjaldarinnar voru 772 reknir úr landi. Af þeim lifðu 34 af dvöl í útrýmingarbúðum nasista. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka