Funda í dag um björgun Grikklands

AFP

Fjár­málaráðherr­ar evru­ríkj­anna koma sam­an til fund­ar síðar í dag í þriðja skiptið á tveim­ur vik­um til þess að ræða hvort veita eigi Grikklandi næsta hluta björg­un­ar­pakka fyr­ir landið vegna efna­hagserfiðleika þess.

Fram kem­ur í frétt AFP að Grikk­ir hafi beðið eft­ir því að fá næsta hluta björg­un­ar­pakk­ans síðan í júní en hann hljóðar upp á 31,2 millj­arða evra og er hluti af heild­arpakka upp á 130 millj­arða evra sem ákveðið var að veita Grikkj­um fyrr á þessu ári til viðbót­ar við fyrri aðstoð.

Rík­is­stjórn Grikk­lands, und­ir for­ystu Ant­on­is Sam­aras for­sæt­is­ráðherra, hrinti í fram­kvæmd enn frek­ari niður­skurði fyrr í þess­um mánuði í sam­ræmi við skil­yrði Evr­ópu­sam­bands­ins og Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðsins fyr­ir frek­ari aðstoð.

Í kjöl­farið sendi Sam­aras frá sér yf­ir­lýs­ingu um að Grikk­ir hefðu nú gert það sem kraf­ist hefði verið af þeim og að frek­ari taf­ir á því að veita þeim næsta hluta björg­un­ar­pakk­ans væru ekki rétt­læt­an­leg­ar. Fái þeir hann ekki er talið næsta víst að Grikk­land lendi í greiðslu­falli.

mbl.is
Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert
Loka