Þýskur læknir sem var sakfelldur í Frakklandi um að myrða táningsstúlku, eftir að faðir stúlkunnar rændi honum og færði hann lögreglu, hefur áfrýjað dóminum. Málið hefur vakið gríðarlega athygli í Frakklandi og er sagt setja stórt fordæmi um hvort franskt réttarfar taki tillit borgaralegrar handtöku.
Læknirinn Dieter Krombach, sem er 77 ára gamall, var stjúpfaðir unglingsstúlkunnar Kalinku Bamberski, sem fannst látin í rúmi sínu á heimili fjölskyldunnar í suðurhluta Þýskalands í júlí 1982. Hún var 14 ára þegar hún dó. Réttarlæknisfræðingar drógu í efa skýringu stjúpföðurins á því hvernig dauða hennar bar að en saksóknarar þar í landi töldu ekki nægjanlegar sannanir fyrir því að ákæra Krombach.
Missti leyfið fyrir að nauðga annarri stúlku
Líffræðilegur faðir stúlkunnar, Frakkinn Andre Bamberski, sætti sig aldrei við þessi málalok. Hann var sannfærður um að Krombach hefði nauðgað stúlkunni og myrt hana og lagði fram kæru á hendur honum í Frakklandi. Árið 1995 var réttað yfir stjúpföðurnum í fjarveru hans og hann fundinn sekur, en þýsk yfirvöld neituðu að framselja hann. Á endanum var dóminum hnekkt.
Árið 1997 var hins vegar grafið enn frekar undan trúverðugleika Krombach í málinu þegar hann var fundinn sekur um að byrla annarri 16 ára stúlku, sem var sjúklingur hans, ólyfjan og nauðga henni. Hann missti þá lækningaleyfið og var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi.
Tók lögin í eigin hendur
Blóðfaðirinn Bamberski missti þolinmæðina árið 2009. Hann ákvað þá að taka lögin í eigin hendur og réð mannræningja sem rændu Krombach á heimili hans í Þýskalandi, fluttu hann yfir landamærin og skildu hann eftir bundinn og keflaðan hjá frönskum dómstólum. Þar var hann í kjölfarið handtekinn og á síðasta ári dæmdur í 15 ára fangelsi í Frakklandi, 29 árum eftir að morðið var framið.
Krombach byggir áfrýjunina á því að um borgaralega handtöku hafi verið að ræða. Lögmaður hans segir að réttarhöldin í Frakklandi haf verið ólögleg vegna þess hvernig hann var þvingaður til landsins. Faðirinn, hinn 75 ára Bamberski, hefur verið kærður fyrir mannrán.