Bretar kjósi um veruna í ESB

Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu.
Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu. AFP

Óvissa um það hvort Bretland verði áfram í Evrópusambandinu er áhyggjuefni. Þetta kom fram í máli Marios Montis, forsætisráðherra Ítalíu, í ítölskum spjallþætti fyrr í þessari viku samkvæmt fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph.

„Það er vandamál varðandi Bretland. Ég er einn þeirra sem eru þeirrar skoðunar að við þurfum að halda Bretum áfram í Evrópusambandinu. Það er þeim í hag að vera áfram í sambandinu og það er ESB í hag að þeir verði þar áfram,“ sagði hann ennfremur.

Monti sagði að sumir í ESB teldu að þeir hefðu minni áhyggjur ef Bretland segði skilið við sambandið. „Ég held að sumir í Frakklandi séu þeirrar skoðunar. Ég er sannfærður um að við verðum að komast að málamiðlun við Bretana.“

Þá sagðist hann hafa sagt við David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, fyrr í þessum mánuði þegar þeir hefðu hist að hann yrði að koma afstöðu Breta til ESB á hreint. Spyrja yrði breska kjósendur hreint út hvort þeir vildu vera áfram í ESB.

Monti sagði að það væri hins vegar afar leiðigjarnt þegar Bretar færu fram á, „sem skilyrði fyrir því að vera áfram um borð í þessu mikla evrópska skipi, ákveðnar undanþágur, tiltekin frávik sem gætu orðið til þess að göt kæmu á skipið, það sigldi ekki eins vel eða hreinlega sykki“.

Fram kemur í fréttinni að Monti sé annar þjóðarleiðtoginn innan ESB sem hafi undanfarnar vikur haft uppi efasemdir um áframhaldandi veru Bretlands innan sambandsins. Angela Merkel, kanslari Þýskalands, hafi fyrr í þessum mánuði sagt að Bretlandi gæti einangrast ef það segði skilið við ESB.

Þá segir að yfirlýsingar Montis og Merkel settu aukinn þrýsting á Cameron að taka af skarið um það hver staða Breta gagnvart ESB eigi að vera en mikill þrýstingur hafi verið á hann heima fyrir, og þá ekki síst innan Íhaldsflokksins, að boða til þjóðaratkvæðis um það hvort Bretland eigi að vera áfram í sambandinu eða ekki.

Frétt Daily Telegraph

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands.
David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert