Frakkar munu styðja beiðni Palestínu um að ríkið fái áheyrnaraðild að allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna. Þetta kom fram í máli utanríkisráðherra Frakklands, Laurents Fabius, á franska þinginu í dag.
Fabius sagði að Frakkar myndu greiða atkvæði með tillögunni á fimmtudag en þá verða greidd atkvæði um umsókn Palestínumanna.
Í drögum að ályktuninni er öryggisráðið hvatt til þess að taka vel í beiðni sem Palestínumenn lögðu fram á allsherjarþinginu í september í fyrra um að fá fulla aðild. Bandaríkin beittu þá neitunarvaldi í öryggisráðinu en það þýddi að umsókn Palestínumanna náði ekki fram að ganga. Alls eiga fimmtán ríki aðild að öryggisráðinu.