Viðræðum fjármálaráðherra evruríkjanna um skuldavanda Grikklands lauk í nótt með þeirri niðurstöðu að Grikkir fái næsta hluta björgunarpakka Evrópusambandsins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Þá var einnig viðurkennt að afskrifa þyrfti meira af skuldum þeirra.
Fundahöldin stóðu í 13 klukkustundir samkvæmt frétt AFP en Grikkir munu fá greidda út 43,7 milljarða evra í neyðarlán að þessu sinni. Á móti þurfa þeir einkum að koma á frekari umbótum í skattamálum sínum til þess að geta greitt af lánum til alþjóðlegra kröfuhafa. Haft er eftir Mario Draghi, bankastjóra Evrópska seðlabankans, að niðurstaðan myndi auka traust á Evrópusambandinu og Grikklandi.
Grísk stjórnvöld hafa fagnað niðurstöðunni mjög. Antonis Samaras, forsætisráðherra Grikklands, sagði við blaðamenn að loknum viðræðunum að allt hefði farið vel að lokum og að allir Grikkir hefðu barist fyrir þessari niðurstöðu. Evruríkin þurfa nú að leggja niðurstöðuna fyrir þjóðþing sín til samþykktar.
Fram kom í yfirlýsingu fjármálaráðherra evrusvæðisins og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að björgunarpakkinn yrði greiddur út í fjórum lotum frá 13. desember næstkomandi og fram í mars.