Ríkisstjórn Spánar sagði í dag að hún ætlaði að bíða eftir að formleg beiðni bærist áður en ákvörðun yrði tekin um hvort stjórnin myndi styðja að Palestínu fengi áheyrnaraðild að Sameinuðu þjóðunum.
„Við erum að bíða eftir að formleg tillaga að lausn verði kynnt. Á meðan erum við að ræða málin við fulltrúa ýmissa þjóða,“ sagði Mariano Rajoy, forsætisráðherra Spánar, við fréttamenn í dag.
Forsætisráðherrann, sem var á blaðamannafundi með forsætisráðherra Tyrklands Recep Tayyip Erdogan, sagði að Spánverjar hefðu alltaf stutt við tvíhliða lausnir á deilum Ísraelsmanna og Palestínumanna.
Forsætisráðherra Tyrklands var meira afgerandi í sínum svörum og sagði: „Að sjálfsögðu viljum við að niðurstaðan í umsókn Palestínu verði já.“
Beiðni Palestínu mun koma fyrir allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna til atkvæða í þessari viku, ári eftir að fullri aðild Palestínu að SÞ var hafnað.
Fyrr í dag lýstu Frakkar því yfir að þeir myndu styðja umsókn Palestínu um áheyrnaraðild. Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra lýsti því einnig yfir í Brussel í gær að Ísland myndi styðja umsókn Palestínumanna.
Verði tillagan samþykkt mun það styðja við tilraunir Palestínumanna til að ná víðtækari alþjóðlegri viðurkenningu.