Lögreglan í Afganistan hefur handtekið tvo karlmenn sem sakaðir eru um að hafa afhöfðað unglingsstúlku með hnífi í norðlæga héraðinu Kunduz. Áður en morðið var framið hafði faðir stúlkunnar hafnað bónorði sem dóttir hans fékk.
„Okkar rannsókn bendir til þess að morðingjar hennar séu þeir sem vildu hana í hjónaband,“ hefur BBC eftir lögreglunni. Fyrr í þessum mánuði voru fjórir afganskir lögreglumenn fangelsaðir fyrir að nauðga 16 ára gamalli stúlku í sama héraði.
Stúlkan sem var myrt var um 14 ára gömul. Hún var að bera vatn úr brunni að heimili sínu þegar ráðist var á hana. „Fólk hafði verið að áreita fjölskyldu hennar og biðja um hönd hennar. Þegar hún hafnaði var hún drepin,“ hefur BBC eftir lögreglunni.
Mennirnir tveir sem grunaðir eru um verknaðinn eru sagðir nánir ættingjar stúlkunnar. Faðir hennar vildi ekki að dóttir hans gengi í hjónaband strax vegna þess að hún væri „of lítil til að trúlofast“ að því er haft er eftir honum í afgönskum fjölmiðlum.