Í desember í fyrra stóð tólf ára stúlka í haugi af líkum í Kabúl eftir sjálfsmorðsárás. Nú, tæpu ári síðar, heimsótti hún vettvang fjöldamorðsins til að bjóða slíkum árásarmönnum birginn.
Hún var þekkt sem grænklædda stúlkan eftir að mynd af henni sem tekin var af Massoud Hossaini, ljósmyndara AFP-fréttastofunnar, birtist í fjölmiðlum um allan heim. Myndin af grænklæddu stúlkunni Tarönu Akbari, sem nú er þrettán ára gömul, vann fyrr á árinu til verðskuldaðra Pulitzer-verðlauna.
Myndin er tekið örskömmu eftir að sjálfsmorðssprengjan sem grandaði 80 manns sprakk fyrir utan bænahús á síðasta degi trúarhátíðar sjíta-múslíma.
Um helgina klæddi Tarana sig aftur í grænan kjól sem hún saumaði sjálf og fór á staðinn þar sem fjöldamorðið var framið. Kjóllinn er líkur þeim sem hún klæddist fyrir ári en þeirri blóðstorknu flík hafði hún hent.
Daginn áður handtók lögreglan tvo skæruliða talibana í vestum hlöðnum sprengjum en þeir höfðu ætlað að ráðast á bænahúsið.
„Ég er ekki hrædd,“ sagði Tarana við AFP-fréttastofuna áður en hún lagði af stað að bænahúsinu. „Ég veit að það er hættulegt en ég ætla samt að fara. Eftir að ég hef heimsótt bænahúsið ætla ég út í kirkjugarð og heimsækja leiði bróður míns og annarra í fjölskyldunni sem létust.“
Eini bróðir Tarönu, níu ára gamall, var meðal þeirra sem létust í árásinni í fyrra. Tarana og tvær systur hennar særðust.
Þrátt fyrir að segjast hugrökk mátti sjá að Tarana var óörugg og nuddaði saman höndunum. Andrúmsloftið á heimili hennar bar þess frekar merki að fjölskyldan væri að fara í stríð en að hún væri að fara í bænahús.
En Tarana varð jákvæðari er hún undirbjó sig til fararinnar og klæddi sig í nýju fötin. Svo lagði hún af stað ásamt föður sínum, Ahmad Shah.
Staðurinn sem hún heimsækir á sér stað í martröðum hennar. „Í draumum mínum er ég aftur komin á staðinn. Ég sé bróður minn og manninn [árásarmanninn]. Þessi draumur er endurtekinn nótt eftir nótt,“ segir Tarana.
Öryggisgæslan var mikil. Margar götur voru lokaðar með lögreglubílum. Vopnaðir lögreglumenn stóðu á húsþökum og í hliðargötum. Leitað var á öllum, meira að segja Tarönu áður en hún fékk að koma nálægt bænahúsinu.
Tarana var ekki ein á ferð, margir höfðu komið á svæðið til að biðja, þeirra á meðal ungir menn sem börðu bak sitt með vöndum samkvæmt hefð.
Grænklædda stúlkan fékk sér loks sæti og sjá mátti sorgina í augum hennar er hún skoðaði sig um á svæðinu. Eftir um hálftíma fór Tarana svo í kirkjugarðinn að leiðum ættingja sinna.
Á valdatíma talibana á tíunda áratugnum voru sjíta-múslímar ofsóttir með ýmsum hætti. Slíkt er nú fátíðara.
Sjítar eru um 20% afgönsku þjóðarinnar og var þeim m.a. bannað að halda Ashura-hátíðina opinberlega í tíð talibana.
Ashura-hátíðin er haldin til að minnast morðsins á Hussein, barnabarni Múhameðs spámanns.