Konur og börn eru nú algengt skotmark ofbeldismanna í Jonglei-héraði í Suður-Súdan. Samfélagið í Jonglei er sundurtætt eftir langvarandi átök þjóðarbrota, hernaðar og uppreisna, segja samtökin Læknar án landamæra.
„Tugþúsundir karla, kvenna og barna hafa orðið ítrekað fyrir árásum, verið drepin eða þurft að flýja. Þetta hefur haft gríðarleg áhrif á líf allra,“ segir í skýrslu Lækna án landamæra. Ofbeldið hefur stigmagnast frá því í fyrra.
„Líf og heilsa fólksins í Jonglei hangir á bláþræði,“ segir Chris Lockyear, stjórnandi hjá Læknum án landamæra. Hann varar við því að enn gæti ofbeldið átt eftir að aukast, sérstaklega sé hætta á því fyrir hendi þegar þurrkatíminn nálgast og örvæntingin þar með.
Átökin snúast m.a. um stuld á búfénaði og hefndaraðgerðum sem gripið er til í kjölfarið. Uppreisnarmennirnir eru nú vopnaðir öflugum byssum.
Þá hafa árásirnar breyst með tímanum. Margar nauðganir hafa verið gerðar og árásirnar hafa einnig beinst að heilsugæslum. Þær hafa sumar hverjar verið eyðilagðar.
„Áður fyrr snérust átökin um nautgripi en nú eru það borgararnir sem eru skotmörkin,“ segir í skýrslunni.
Á síðustu 18 mánuðum hafa 2.600 manns verið drepin jí Jonglei, að mati Sameinuðu þjóðanna.
„Þeir kveiktu í kofunum og hentu svo börnunum á bálið,“ segir 55 ára kona sem Læknar án landamæra hlúðu að.
„Af því að ég er gömul get ég ekki hlaupið hratt og þeir drápu börnin sem voru með mér,“ segir konan sem flúði undan árás manna sem vopnaðir voru byssum. „Ef að barnið getur hlaupið, þá skjóta þeir það með byssu. Ef það er lítið og getur ekki hlaupið drepa þeir það með hnífi.“