„Lagabreyting getur ekki verið eina svarið við vanda breskra fjölmiðla. Þeir þurfa að setja sér eigin reglur, sem styðjast við lagaákvæði. En það er ekki mitt hlutverk að setja fjölmiðlum siðareglur eða ákveða hvernig sjálfstæðu eftirliti með þeim yrði háttað.“ Þetta er meðal þess sem Leveson lávarður, formaður nefndar sem vann skýrslu um vinnubrögð og siðferði í breskum fjölmiðlum, sagði þegar skýrslan var kynnt í dag.
„Fjölmiðlar hafa hunsað eigin siðareglur og það hefur valdið usla í lífi saklauss fólks allt of oft undanfarinn áratug,“ sagði Leveson. „Yfirleitt eru samskiptin á milli fjölmiðla og stjórnmálamanna heilbrigð, en í sumum tilvikum hafa þau orðið of náin,“ sagði Leveson án þess að tiltaka einstök dæmi.
Viðbrögð við niðurstöðu skýrslunnar eru blendin. Þannig sagði Brooks Newmark, þingmaður Íhaldsflokksins, að skýrslan væri ekkert annað en réttlæting á því hvernig David Cameron forsætisráðherra hefði höndlað málefni fjölmiðlanna. „Þarna segir að fjölmiðlarnir eigi að fá annað tækifæri,“ sagði Newmark í samtali við BBC.
Nick Robinson, stjórnmálaritstjóri hjá BBC, segir að Leveson sé augljóslega að reyna að brúa bilið á milli þeirra sem vilji að fjölmiðlarnir fái að ráða sér sjálfir og þeirra sem vilji að þeim séu settar lagalegar skorður.
Leveson sagði að skýrslan talaði sínu máli og nú væri boltinn hjá stjórnmálamönnum. „Þeir verða að ákveða hver vaktar varðhundana.“
Í kjölfarið munu bæði David Cameron forsætisráðherra og Nick Clegg aðstoðarforsætisráðherra flytja yfirlýsingar á þinginu þar sem afstaða þeirra til álits Leveson-nefndarinnar kemur fram.