Sýknaður af ákæru um stríðsglæpi

Fyrrverandi forsætisráðherra Kosovo, Ramush Haradinaj, var í dag sýknaður af ákæru um morð og pyntingar í Kosovo-stríðinu undir lok tuttugustu aldar, fyrir Stríðsglæpadómstól Sameinuðu þjóðanna.

Er þetta annað skiptið á hálfum mánuði sem dómstóllinn sýknar menn af ákæru um stríðsglæpi gegn Serbum.

Var Haradinaj látinn laus að lokum úrskurði dómstólsins ásamt tveimur öðrum fyrrverandi liðsmönnum frelsishers Kosovo.

Gríðarleg fagnaðarlæti brutust út í Pristina, höfuðborg Kosovo, þegar niðurstaða dómstólsins lá fyrir. Var flugeldum skotið á loft og fagnaði fólk á götum úti.

Um endurupptöku var að ræða í máli Haradinaj, 44 ára, og Idriz Balaj, 41 árs. Mál Haradinaj var fyrst höfðað 5. mars 2007 og var kveðinn upp dómur yfir honum 3. apríl 2008. Sá dómur var síðan ómerktur árið 2010. Voru þeir ákærðir fyrir að hafa myrt og pyntað Serba í Kosovo-stríðinu 1998-1999.

Sá þriðji, Lahi Brahimaj, 42 ára, var ákærður í fjórum liðum fyrir sinn hlut í stríðinu fyrir hönd albanskra skæruliða gegn hersveitum Serba, undir stjórn Slobodans Milosevic.

Stjórnvöld í Serbíu gagnrýna niðurstöðu stríðsglæpadómstólsins harðlega en fyrir tveimur vikum var hershöfðingi í her Króata, Ante Gotovina, sýknaður af ákæru um stríðsglæpi gegn Serbum. Telja stjórnvöld í Serbíu að með þessu taki stríðsglæpadómstóllinn undir með mafíósum í Kosovo.

Saksóknarar ákærðu þremenningana fyrir morð og pyntingar og höfðu krafist þess að þeir yrðu dæmdir í tuttugu ára fangelsi. Dómarar töldu hins vegar að þeir hafi ekki tekið þátt í skipulögðum glæpum sem fólust í þjóðernishreinsunum á hendur Serbum sem eru í minnihluta í Kosovo. Töldu þeir vitnisburð þeirra sem komu fyrir dóminn ótrúverðugan. Jafnvel hafi eitt vitnanna ekki verið í Jablanica-fangabúðunum þar sem meint ódæðisverk áttu að hafa verið framin. Ekki hafi verið sannað að Haradinaj hafi vitað um þá glæpi sem voru framdir í Jablanica.

Þrátt fyrir að hafa verið sýknaður í dag er Haradinaj eftirlýstur af saksóknurum í Belgrad sem saka hann um stríðsglæpi.

Yfir tíu þúsund manns létust í átökunum um Kosovo, einum myrkasta hluta átakanna um yfirráð á Balkanskaganum eftir fall Júgóslavíu. Kosovo lýsti yfir sjálfstæði frá Serbíu árið 2008 og þrátt fyrir að fjölmörg ríki hafi viðurkennt sjálfstæði Kosovo standa Serbar enn gegn sjálfstæði ríkisins.

Ramush Haradinaj
Ramush Haradinaj AFP
Stuðningsmaður Ramush Haradinaj fyrir utan dómssalinn í dag
Stuðningsmaður Ramush Haradinaj fyrir utan dómssalinn í dag AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert