Frá og með næstu áramótum verður nemendum í skóla í Árósum í Danmörku bannað að bera niqab, búningi sem einkum múslímakonur klæðast. Búningurinn hylur andlit að mestu og líkamann frá toppi til táar. Danski þjóðarflokkurinn vill að slíkt bann verði leitt í landslög.
Skólinn heitir VUC og þar er meðal annars kennd danska fyrir útlendinga.
Mikil umræða hefur verið í Danmörku um hvort og hvernig eigi að setja reglur um klæðnað nemenda í skólum. Í síðustu viku voru tvær systur sendar heim úr menntaskóla í bænum Tilst fyrir að klæðast niqab. Skólastjórinn sagði ástæðuna vera þá að námið byggðist að miklu leyti upp á samskiptum og því gengi ekki að nemendur hyldu andlit sitt.
Danski þjóðarflokkurinn hefur lengi haft bann af þessu tagi á stefnuskrá sinni og fagnar flokkurinn þessu banni í Árósum. Aðrir flokkar eru ekki jafn afgerandi í afstöðu sinni og telja að einstakir starfsmenn skóla og stofnana ættu að geta fundið út úr þeim vandamálum sem klæðaburður af þessu tagi getur skapað án þess að þau þurfi að koma til kasta þingmanna.