Desmond Tutu og tveir aðrir handhafar friðarverðlauna Nóbels hafa ritað bréf til Nóbelsverðlaunanefndarinnar þar sem þeir mótmæla þeirri ákvörðun hennar að veita Evrópusambandinu verðlaunin í ár.
Auk Tutu rita Mairead Maguire og Adolfo Perez Esquivel undir bréfið en þau hlutu verðlaunin 1976 og 1980.
Fram kemur í bréfinu samkvæmt frétt AFP að Evrópusambandið sé augljóslega ekki baráttusamtök fyrir friði eins og stofnandi verðlaunanna, Alfred Nobel, hafði í huga þegar hann ritaði erfðaskrá sína. Þá er Nóbelsverðlaunanefndin sökuð í bréfinu um að hafa breytt forsendum verðlaunanna á skjön við reglurnar sem gildi um þau.