Sjóræningjar fengu 16 ára dóm

Vöruflutningaskip úti fyrir ströndu Mogadishu, stærstu borgar Sómalíu.
Vöruflutningaskip úti fyrir ströndu Mogadishu, stærstu borgar Sómalíu. AFP

Ítalskur dómstóll dæmdi í dag átta sómalíska sjóræningja í 16 til 19 ára fangelsi fyrir tilraun til að ræna flutningaskipi sem siglir undir ítölsku flaggi árið 2011. Um er að ræða ein umfangsmestu réttarhöld vegna sjóráns í Evrópu.

Áhöfnin um borð í flutningaskipinu Montecristo læsti sig inni í vélarrúminu þegar vopnaðir sjóræningjar réðust um borð í skipið undan ströndum Sómalíu. Sjóræningjunum tókst að halda skipinu í 24 klukkustundir, áður en bresk, ítölsk og bandarísk herskip skárust í leikinn.

Mennirnir átta voru fundnir sekir um tilraun til mannráns og nauðungar og fyrir ólöglega skotvopnaeign. Ákæru á hendur þeim um að vera handbendi hryðjuverkasamtaka var hins vegar vísað frá dómi.

Réttað hefur verið yfir sjóræningjum í nokkrum löndum síðustu misseri, s.s. Frakklandi, Keníu, Suður-Kóreu og Bandaríkjunum en málið á Ítalíu var það stærsta til þessa. Sjórán við Sómalíu voru orðin mikil plága en gripið hefur verið til harða aðgerða gegn þeim og hafa þau ekki verið færri síðan árið 2008.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert