Forseti Ekvadors, Rafael Correa, segir að örlög Julians Assanges, stofnanda Wikileaks, séu undir Bretum, Svíum og evrópsku dómskerfi komin.
Assange hefur nú um nokkurra mánaða skeið átt hæli í ekvadorska sendiráðinu í London þar sem hann telur fullvíst að hann verði framseldur til Bandaríkjanna ef Svíar handtaka hann vegna nauðgunarkæru á hendur honum.
Correa sagði í viðtali við AFP að vel væri hægt að leysa úr þessari pattstöðu. Hann segir að Svíar hljóti að geta yfirheyrt Assange í sendiráðinu í London, eða þá gegnum Skype, án þess að hann þurfi að fara til Svíþjóðar.