Vill leyfa ríkjum að yfirgefa evrusvæðið

Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands.
Mark Rutte, forsætisráðherra Hollands. AFP

Forsætisráðherra Hollands, Mark Rutte, vill að einstökum ríkjum Evrópusambandsins verði heimilað að yfirgefa evrusvæðið kjósi þau að gera það. Þetta er meðal þess sem kom fram í viðtali við hann í þýska dagblaðinu Süddeutsche Zeitung í gær.

„Við viljum leyfa ríkjum að yfirgefa evrusvæðið vilji þau gera það. Eins og sakir standa er sú ekki raunin, ríki getur aðeins yfirgefið evrusvæðið ef það segir skilið við Evrópusambandið. Við ættum að endurskoða sáttmálana og breyta því. Við erum reiðubúnir til þess,“ sagði Rutte í viðtalinu.

Talsvert hefur verið rætt um það samhliða efnahagserfiðleikunum innan evrusvæðisins að eitt eða fleiri aðildarríki þess kynnu að ákveða að segja skilið við það. Hefur einkum verið rætt um Grikkland í því sambandi.

Forystumenn Evrópusambandsins hafa allajafna þvertekið fyrir þann möguleika og lagt þunga áherslu á mikilvægi þess að Grikkland sem og önnur evruríki verði áfram hluti af evrusvæðinu.

Viðtalið í Süddeutsche Zeitung

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert