Mahmud Abbas, forseta Palestínu, var fagnað ákaft þegar hann sneri aftur til Palestínu í dag eftir atkvæðagreiðsluna í allsherjarþingi Sameinuðu þjóðina og ávarpaði Palestínumenn með orðunum: „Já, nú eigum við ríki.“
Abbas sagði Palestínu hafa náð sögulegum árangri hjá Sameinuðu þjóðunum, en þrír dagar eru liðnir síðan 138 ríki á allsherjarþinginu greiddu atkvæði með því að Palestína fengi áheyrnarstöðu hjá SÞ. 9 ríki greiddu atkvæði gegn því.
„Heimsbyggðin sagði háum rómi já við ríkinu Palestínu, já við frelsi Palestínu, já við sjálfstæði Palestínu. Enginn yfirgangur, engar landnemabyggðir, engin herseta,“ sagði Abbas og uppskar mikil fagnaðarlæti.
Hann hét því jafnframt að eftir þennan áfangasigur hjá Sameinuðu þjóðunum væri hans fyrsta forgangsatriði að vinna að því að sameina Palestínumenn og stríðandi fylkingar Hamas og Fatah. „Við munum á næstu dögum fara yfir þau nauðsynlegu skref sem þarf að taka. Fólkið vill binda enda á aðskilnaðinn.“
Sigurinn er sætur fyrir Abbas, sem tókst ekki að fá áheyrnarstöðu Palestínu samþykkta hjá SÞ á síðasta ári. Tekið var á móti honum á Vesturbakkanum með heiðursverði og rauðum dregli þegar hann sneri aftur í Muqaataa, forsetabústaðinn í Ramallah. Þar lagði hann blómsveig við gröf Yassers Arafat, sem er grafinn við forsetabústaðinn. Síðar tileinkaði Abbas sigurinn hjá SÞ minningu forsetans heitna.
Í ávarpi sínu í dag sagði hann samþykkt Sameinuðu þjóðanna vera afrek Palestínumanna um allan heim. „Fólkið okkar alls staðar, haldið höfðinu hátt því þið eruð Palestínumenn. Þið eruð sterkari en hernámið því þið eruð Palestínumenn. Þið eruð sterkari en landnemabyggðirnar, því þið eruð Palestínumenn.“
Ísraelsmenn tilkynntu á föstudag, daginn eftir atkvæðagreiðsluna, áætlanir um að byggja 3.000 ný landnemahús í austurhluta Jerúsalem og á Vesturbakkanum. Þá ætla þeir ekki að greiða Palestínumönnum skattfé og tolla sem innheimtir voru í nóvember og hlaupa á milljónum Bandaríkjadala.