Ríkisstjórn Japans hefur fyrirskipað að farið verði þegar í stað yfir jarðgöng í landinu, en ákvörðunin er tekin í kjölfar mannskæðs slyss sem varð í gær þegar Sasago-jarðgöngin hrundu.
Staðfest er að níu eru látnir eftir að steypustykki hrundu í göngunum, sem erum 80 km vestur af höfuðborginni Tókýó. Þá er rannsókn á orsökum slyssins hafin, að því er fram kemur á fréttavef BBC.
Forsvarsmenn jarðganganna telja að járnstykki sem héldu þiljunum saman hafi mögulega losnað.
Fram kemur í japönskum fjölmiðlum að samgöngu- og ferðamálaráðuneyti landsins hafi fyrirskipað öllum rekstraraðilum jarðganga sem eru svipuð Sasago-göngunum að skoða göngin þegar í stað.
Fréttaskýrandi BBC í Tókýó, segir að a.m.k. 20 göng verði skoðuð í þaula.