Spænsk stjórnvöld hafa formlega óskað eftir 39,5 milljörðum evra úr björgunarsjóðum Evrópusambandsins til þess að endurfjármagna spænska banka samkvæmt fréttavef breska dagblaðsins Daily Telegraph í dag.
Fram kemur í fréttinni að gert sé ráð fyrir því að meirihluta fjárins, 37 milljörðum evra, verði varið í að styrkja fjóra þjóðnýtta banka, Bankia, Catalunya Banc, NCG Banco og Banco de Valencia. Þá verði 2,5 milljarðar notaðir í sérstakan banka sem stofnaður var í kringum svonefndar eitraðar eignir banka.
Búist er við að fjármálaráðherrar evrusvæðisins samþykki formlega að verða við ósk spænskra stjórnvalda á fundi sínum sem nú stendur yfir í Brussel.