Fimm manns, þar á meðal tveir hermenn, létu lífið í skotbardaga á milli hermanna og byssumanna í þorpinu Jalila í suðurhluta Jemen í dag.
Til átakanna kom samkvæmt frétt AFP þegar þorpsbúar stöðvuðu herbifreið í mótmælaskyni gegn byggingu nýrrar herstöðvar á hæð fyrir ofan þorpið. Byssumenn skutu á hjólbarða bifreiðarinnar og svöruðu hermennirnir með skothríð.
Tveir hermenn létust í átökunum sem fyrr segir og tveir byssumenn úr röðum þorpsbúa auk ungrar stúlku.
Jalila er skammt norðan við borgina Daleh sem verið hefur helsta bækistöð þeirra sem vilja aðskilja Suður-Jemen frá norðurhluta landsins og stofna sjálfstætt ríki.