Fyrstur til að taka eftirnafn konunnar

Frá Lyon í Frakklandi.
Frá Lyon í Frakklandi. Wikipedia

Franskur eiginmaður frá borginni Lyon í vesturhluta Frakklands hefur tekið sér eiginnafn konu sinnar og er þar með fyrstur til þess eftir að sett voru lög í landinu sem stuðla eiga að auknu jafnrétti.

Maðurinn, sem er 37 ára gamall og gekk að eiga konu sína í september, lenti þó fyrst í miklum erfiðleikum í samskiptum sínum við embættismenn í heimaborg sinni sem áttuðu sig ekki á tilvist laganna. Var erindi hans fyrir vikið hafnað sjö sinnum áður en það fékkst samþykkt.

Fram kemur í frétt Daily Telegraph að maðurinn hafi að lokum gripið til þess ráðs að prenta út eintak af lögunum af vefsíðu ríkisstjórnarinnar. Hann segist hafa leitað til sjö opinberra aðila til þess að láta breyta nafninu sínu með þessum hætti en alltaf fengið þau svör að eyðublöðin sem fylla þyrfti út gerðu ekki ráð fyrir því að eiginmenn tækju upp eftirnöfn kvenna sinna.

Maðurinn segir ástæðuna fyrir ákvörðuninni þá að hann sé af tyrknesku bergi brotinn og að erfitt sé fyrir Frakka að bera fram eftirnafn hans sjálfs. Það hafi gert honum erfitt fyrir með að fá vinnu. Nafn konunnar hans hljómaði hins vegar franskt. Honum var þó aðeins boðið upp á að taka upp eftirnafn eiginkonunnar þannig að það væri samsett hans eigin.

Þá segir í fréttinni að umrædd lög hafi tekið gildi í október en fengið litla athygli í fjölmiðlum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert