Of feitur til að vera tekinn af lífi

mbl.is

Ronald Post vegur 204 kíló og er nú á dauðadeild í fangelsi í Ohio fyrir morð árið 1983. Það á að taka hann af lífi 16. janúar en lögfræðingar hans segja það ómögulegt. Hann sé einfaldlega of feitur.

Lögfræðingarnir, sem eru að reyna að fá dauðadómnum hnekkt, segja að engar æðar til að sprauta eitrinu í finnist á líkama Post vegna offitunar. Því þurfi að sprauta eitrinu inn í vöðva hans. Slíkt getur tekið fleiri klukkustundir og jafnvel daga og mun fleiri skammta af eitri þyrfti til að taka Post af lífi með þeim hætti. Dauðastríð Posts gæti því orðið hroðalegt og sársaukafullt, segja lögfræðingar hans.

Post hefur þyngst um 90 kíló frá því að hann fór á dauðadeildina. Hann var dæmdur fyrir að myrða afgreiðslumann í gistiheimili árið 1983. Lögmenn hans reyna nú að fá dauðadómnum hnekkt þar sem offita hans muni verða til þess að hann muni hljóta harðneskjulegan dauðdaga, verði hann tekinn af lífi.

Yfirvöld í Ohio segja þetta ekki rétt. Hægt verði að taka hann af lífi með „manneskjulegum hætti“, hvort sem hefðbundin aðferð yrið notuð eða hin óreynda varaleið, þ.e. að sprauta eitrinu í vöðva í stað æða.

Lögfræðingarnir hafa m.a. sagt að bekkurinn, sem hinn dauðadæmdi fangi er látinn liggja á á meðan hann fær hinar banvænu sprautur, muni ekki þola þyngd Posts. Fangelsismálayfirvöld hafna því og segja bekkinn þola mun meiri þyngd.

Aðstoðarríkissaksóknarinn segir að ekki hafi verið lagðar fram nægar sannanir til þess að fresta eða hætta við dauðarefsinguna. Áfrýjunin verður tekin fyrir dóm síðar í mánuðinum.

Málið er ekki einsdæmi. Árið 1994 ákvað dómari í Washington að Mitchell Rupe sem vó yfir 180 kíló, væri of þungur til að verða hengdur. Hengingin hefði getað orðið til þess að slíta höfuðið af líkama hans. Dauðadómnum var því breytt í lífstíðardóm og Rupe lést í fangelsi árið 2006.

Prófessor í lögfræði við Fordham-háskóla, segir í viðtali við AP-fréttastofuna að fái Post dómnum hnekkt vegna offitu sinnar, muni það ekki hafa mikil áhrif á mál annarra fanga. Mjög fáir fangar á dauðadeild þjáist af sambærilegri offitu. Þá segir hún ólíklegt að fangar eigi eftir að fara að troða í sig mat til þess að komast hjá banvænu sprautunni.

Ronald Post.
Ronald Post.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert