Harðnandi átök og áhyggjur af efnavopnum

Frá Sýrlandi.
Frá Sýrlandi. AFP

Hörð átök voru á milli stjórnarhersins og stjórnarandstæðinga í Sýrlandi í úthverfum Damaskus, höfuðborgar landsins, í dag. Einnig var barist í borginni Daraya. Áhyggjur fara vaxandi af því að stjórnvöld muni í örvæntingu sinni grípa til efnavopna.

Í dag hittust utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands í Dublin á Írlandi, auk Lakhdar Brahimi, sérlegs sendifulltrúa Sameinuðu þjóðanna í málefnum Sýrlands og ræddu hugsanlegar lausnir á ástandi mála. Rætt var um hugsanlega notkun Sýrlandshers á efnavopnum. Hillary Clinton, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hefur lagt ríka áherslu á að það verði ekki liðið. 

„Megináhyggjuefni okkar núna er að stjórnin verði sífellt örvæntingarfyllri og grípi til efnavopna. Einnig gæti það gerst að einhver samtök gætu náð efnavopnunum af stjórnarhernum.“

Ban Ki-moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í dag að Assad Sýrlandsforseti myndi þurfa að svara til saka, færi svo að efnavopnum yrði beitt.

Mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights telja að rúmlega 100 hafi látist í átökum í landinu í dag. Alls er talið að meira en 41.000 hafi látist í átökum þar síðan þau hófust í mars í fyrra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert