Nafissatou Diallo, hótelþernan sem sakaði Dominique Strauss-Kahn, fyrrverandi framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, um að hafa reynt að nauðga sér, er farin í felur. Fyrir utan lögfræðinga hennar vita fáir hvar Diallo býr og nafn hennar hefur verið fjarlægt af póstkassa í íbúðabyggingu í Bronx þar sem hún var búsett.
Diallo er frá Afríkuríkinu Gíneu. Sumir í samfélagi Gínea í New York vilja sem minnst af málinu vita, aðrir skammast sín fyrir að kona úr þeirra hópi hafi lent í þessari aðstöðu og finna ekki til með henni. Enn aðrir segja að með því að taka við sex milljóna dollara sáttagreiðslu frá Strauss-Kahn hagi hún sér eins og vændiskona. Hún hefði átt að sjá til þess að hann færi í fangelsi fyrir athæfi sitt.
„Konur þurfa að gæta að virðingu sinni,“ sagði einn landi hennar í samtali við AFP-fréttastofuna. „Það eru ýmis vandamál í Afríku. Núna er búið að rýra trúverðugleika Afríkubúa.“
Annar var jákvæðari í garð Diallo, sagðist trúa henni og var ánægður með að málinu væri lokið. Einn landi hennar sagði hana vera fórnarlamb, en nú væri hún ekki örugg í Bandaríkjunum og best væri að hún sneri aftur til Gíneu.