Ástralska útvarpsstöðin 2Day FM, sem sendi út símaat sem gert var í starfsfólki sjúkrahússins í London þar sem Katrín, hertogaynja af Cambridge dvaldi, hefur áður vakið hörð viðbrögð vegna vinnubragða starfsfólks.
Áströlsku útvarpsmennirnir Mel Greig og Michael Christian sem starfa hjá 2Day FM þóttust vera Elísabet Englandsdrottning og Karl Bretaprins í síma og hafa verið send í leyfi frá störfum um óákveðinn tíma.
Hrekkurinn beindist að starfsfólki sjúkrahúss Játvarðar konungs þar sem Katrín, hertogaynja af Cambridge, dvaldist vegna meðgönguógleði. Hjúkrunarfræðingurinn, sem varð fyrir hrekknum, tók eigið líf síðastliðna nótt.
Árið 2009 var Kyle Sandiland, útvarpsmaður á stöðinni, sem er staðsett í borginni Sidney, rekinn eftir að hann sendi út lygapróf þar sem táningsstúlka var spurð hvort hún væri kynferðislega virk. Þar kom fram að henni hefði verið nauðgað.
Sandiland, var þá afar vinsæll útvarpsmaður og var að auki dómari í ástralska Idol og var líka rekinn þaðan eftir fjölmargar áskoranir frá almenningi og forsætisráðherra landsins. Síðan var hann kominn aftur í loftið með útvarpsþátt sinn eftir þrjár vikur og sögðu forsvarsmenn útvarpsstöðvarinnar að allir hefðu lært sína lexíu.
Vinnubrögð Sandilands urðu aftur tilefni umræðu í fyrra þegar hann úthúðaði blaðakonu nokkurri, kallað hana „feitan og bitran úrgang“ og gerði lítið úr starfsferli hennar. Þá var það harðlega gagnrýnt þegar hann kallaði stúlku af pakistönskum ættum, sem fæddist með aukaútlimi, „köngulóarbarnið“.
Frá þessu greinir á fréttavef Lundúnablaðsins The Guardian