Heppinn lottóspilari gaf sig fram í Arizona í Bandaríkjunum í dag en hann átti annan vinningsmiðann í bandaríska Powerball-lottóinu sem dregið var úr í síðustu viku en potturinn var sá næststærsti í sögu landsins og hljóðaði upp á 587,5 milljónir dollara.
Vinningshafinn hefur ekki viljað gefa upp hver hann er en hann kaus að fá greiddar út 192 milljónir dollara í einni greiðslu. Miðinn var keyptur verslun í bænum Fountain Hills norðaustur af höfuðstaðnum Phoenix. Vika er síðan vélvirkinn Mark Hill frá Missouri gaf sig fram með hinn vinningsmiðann.
Sannkallað lottóæði greip um sig í kjölfar þess að vinningurinn var dreginn út og seldust 160 þúsund miðar á mínútu að meðaltali síðustu vikuna fyrir útdráttinn samkvæmt frétt AFP.
Dregið er í Powerball-lottóinu á tveggja vikna fresti í 42 ríkjum Bandaríkjanna en enginn hafði fyrir úrdráttinn fengið allar tölurnar réttar og þar með unnið stóra vinninginn síðan 6. október.