Hague óttast efnavopnanotkun

William Hague, utanríkisráðherra Bretlands.
William Hague, utanríkisráðherra Bretlands. AFP

William Hague, utanríkisráðherra Bretlands, segir sannanir liggja fyrir um að Sýrlandsher gæti notað efnavopn gegn uppreisnarmönnum. Hann segir herinn eiga miklar birgðir af efnavopnum og segir þróun undanfarinna vikna benda til þess að þau verði senn tekin í notkun.

Stjórnvöld í Sýrlandi hafa fullyrt að þau myndu aldrei grípa til efnavopna gagnvart stjórnarandstæðingum.

Hague segir að Bretar hafi, ásamt Bandaríkjamönnum, sent stjórn Bashars al-Assads, forseta Sýrlands, skýr skilaboð. „Við höfum gert viðbragðsáætlun, komi til þess að Sýrlendingar grípi til efnavopna. En það verður ekki greint frá því hvað í henni felst,“ sagði Hague í morgun, þar sem hann var staddur í borginni Manama í Barein.

Hann sagði að hernaðaríhlutun í Sýrlandi hefði ekki verið afskrifuð, en Bretar styddu að leitað yrði friðsamlegra lausna. Hann sagði það ekki vera hlutverk Breta að láta heri í Mið-Austurlöndum, hver sem afstaða þeirra væri, fá vopn. 

„Við munum halda áfram að aðstoða stjórnarandstæðinga með því að láta þá fá samskiptabúnað og veita þeim ýmsa mannúðaraðstoð,“ sagði Hague. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert