„Við hefðum átt að nýta okkur þetta tækifæri og skorið höfuðið af höggorminum. Meshaal á skilið að deyja,“ sagði Shaul Mofaz, leiðtogi Kadima-flokksins í Ísrael, í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í dag en flokkur hans er stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á ísraelska þinginu.
Vísaði Mofaz þar til komu leiðtoga Hamas-samtakanna, Khaled Meshaal, til Gaza-strandarinnar þar sem hann hafnaði því meðal annars í ræðu á fjöldafundi að viðurkenna Ísraelsríki og sagði Palestínumenn gera kröfu til allrar Palestínu frá Miðjarðarhafinu til Jórdan-árinnar.
Mofaz, sem er fyrrverandi varnarmálaráðherra Ísraels og hershöfðingi, sagðist ráðleggja Meshaal að pakka niður í töskurnar sínar aftur eins hratt og hann gæti og yfirgefa Gaza-ströndina.
Ennfremur sagði hann að ef Mahmud Abbas, forseti Palestínu, tæki ekki á Hamas-samtökunum yrði Meshaal brátt einnig við völd á Vesturbakkanum þar sem Fatah-hreyfing forsetans ræður ríkjum.