Monti ætlar að segja af sér

Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu.
Mario Monti, forsætisráðherra Ítalíu. AFP

Forsætisráðherra Ítalíu, Mario Monti, hyggst segja af sér embætti samkvæmt frétt AFP aðeins nokkrum klukkustundum eftir að forveri hans í embætti, Silvio Berlusconi, tilkynnti að hann ætlaði að sækjast aftur eftir embættinu.

Fram kemur í tilkynningu frá skrifstofu Giorgios Napolitano, forseta Ítalíu, samkvæmt fréttinni að Monti telji sér ekki fært að halda áfram störfum ríkisstjórnar sinnar og hafi af þeim sökum komið því á framfæri að hann ætlaði að leggja fram afsögn sína.

Þá segir að ákvörðun Montis komi í kjölfar fundar sem hann átti með forseta Ítalíu og funda með forystumönnum stjórnmálaflokka á ítalska þinginu í gær. Ætlun hans sé að tryggja að fjárlög næsta árs verði samþykkt en segja síðan af sér.

Ennfremur kemur fram í frétt AFP að forysta flokks Berlusconis hafi gefið yfirlýsingar sem túlkaðar hafi verið sem vantraust á ríkisstjórn Montis.

Hins vegar hafi Monti áður tekið ákvörðun um að hætta sem forsætisráðherra að loknum þingkosningum sem gert hafi verið ráð fyrir að færu fram í mars eða apríl. Monti hefur verið forsætisráðherra Ítalíu síðan í nóvember 2011.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert