Bandarískir hermenn drápu sjö liðsmenn talibana í Afganistan í dag þegar þeir björguðu bandarískum lækni sem verið hafði í haldi í austurhluta landsins en aðgerðinni var hrint í framkvæmd í skjóli nætur.
Greint er frá því í frétt AFP að tekin hafi verið ákvörðun um að bjarga lækninum, Dilip Joseph, eftir að upplýsingar bárust um að hann kynni að vera í lífshættu en honum var rænt 5. desember síðastliðinn.
Haft er eftir John Allen, hershöfðingja og yfirmanni hersveita Bandaríkjanna og NATO í Afganistan, að hann sé stoltur af þeim bandarísku og afgönsku hermönnum sem hafi skipulagt, æft og síðan framkvæmt aðgerðina með árangursríkum hætti. Það sé þeim að þakka að Joseph geti nú snúið aftur til fjölskyldu sinnar.