Umdeilt framboð Berlusconis. Endurkoma risaeðlu?

Silvio Berlusconi er farinn að búa sig af miklum móð undir komandi kosningabaráttu, en þessi 76 fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu og milljarðamæringur tilkynnti í gær að hann myndi sækjast á ný eftir forsætisráðherraembættinu. 

Sama dag tilkynnti forsætisráðherra landsins, Mario Monti, að hann myndi segja af sér um leið og fjármálafrumvarp landsins hefði verið samþykkt.

Berlusconi gæti reynst öðrum frambjóðendum erfiður ljár í þúfu, en hann hefur gefið það út að hann muni berjast gegn óvinsælum niðurskurðaráætlunum og boðuðum skattahækkunum stjórnvalda.

Tveggja áratuga stjórnmálaferill

 „Þessi síðasta krossferð Berlusconis veldur ójafnvægi á stjórnmálasviðinu,“ skrifaði Stefano Folli, dálkahöfundur viðskiptadagblaðsins Il Sole 24 Ore í dag. „Mótframbjóðendur hans hræðast hann varla, heldur kosningabaráttu sem mun einblína á Evrópusambandið, Þýskaland og niðurskurð í efnahagsmálum.“

Sviðsljósið hefur alloft beinst að ýmsum uppátækjum Berlusconis, ekki síður en afrekum hans á stjórnmálasviðinu. Stjórnmálaferill hans spannar nú tvo áratugi og frá því hann lét af embætti forsætisráðherra í nóvember í fyrra hafa miklar innanbúðardeilur verið í flokki hans, Frelsisflokknum. Ýmsir innan flokksins vilja ekkert með Berlusconi hafa, til dæmis sagði leiðtogi ungliðahreyfingar flokksins að framboð forsætisráðherrans fyrrverandi væri „mistök“.

Í dagblaðinu Il Giornale, sem reyndar er í eigu Berlusconis, segir í dag að framboð hans sé „Endurkoma risaeðlu“.  „Hann er höfundur hægri-miðjunnar og leiddi flokkinn til sigurs og inn í ríkisstjórn. Það er þá rökrétt að hann loki hringnum og leiði flokkinn til eilífrar glötunar,“ segir í leiðara blaðsins ídag.

Silvio Berlusconi fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu hyggur á endurkomu.
Silvio Berlusconi fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu hyggur á endurkomu. AFP
Mario Monti forsætisráðherra Ítalíu.
Mario Monti forsætisráðherra Ítalíu. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert