Sýrland „blettur“ á samvisku heimsins

Forseti framkvæmdastjórnar ESB,Jose Manuel Barroso, flytur ræðu í Ósló.
Forseti framkvæmdastjórnar ESB,Jose Manuel Barroso, flytur ræðu í Ósló. AFP

Evrópusambandið, sem tók við friðarverðlaunum Nóbels í Ósló í dag, segir að Sýrland sé „blettur“ á samvisku heimsins.

„Leyfið mér að segja það hér í dag,“ sagði Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnar ESB, „ástandið í Sýrlandi er blettur á samvisku heimsins og alþjóðasamfélaginu ber skylda til að taka á því.“

Barroso segir að á alþjóðlegum mannréttindadegi, sem er í dag, sé hugur ESB hjá þeim sem um allan heim „leggja líf sitt í hættu til að vernda gildi sem við kunnum að meta“.

Utanríkisráðherrar ESB ræða ástandið í Sýrlandi á fundi í Brussel í dag. Þar hafa átök nú geisað í 21 mánuð. Þau hafa kostað yfir 42 þúsund manns lífið, marga óbreytta borgara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert