Viðbúnaður í Ósló vegna friðarverðlauna

Töluverður viðbúnaður er í Ósló vegna afhendingu friðarverðlauna Nóbels í borginni í dag. Helstu leiðtogar Evrópusambandsins munu veita verðlaununum viðtöku í dag.

Forseti Evrópusambandsins, Herman Van Rompuy, sagði á fjölmennum blaðamannafundi í Ósló í gærkvöldi að Evrópua yrði enn sameinaðri en áður eftir efnahagskreppuna og myndi hvergi slaka á í friðarbaráttunni. „Evrópa er að fara í gegnum erfitt tímabil,“ sagði Van Rompuy á fundinum. „Við leggjum hart að okkur... Við munum koma sterkari út eftir þetta tímabil óvissu og niðursveiflu.“

Auk Van Rompuy mun forseti framkvæmdastjórnar ESB, Jose-Manuel Barroso og forseti Evrópuþingsins, Martin Schulz, veita verðlaununum viðtöku í dag.

Nóbelsnefndin hefur verið harðlega gagnrýnd fyrir að veita ESB friðarverðlaunin í ár. Óttast gagnrýnendur að öfgahreyfingum eigi eftir að vaxa fiskur um hrygg í Grikklandi. Auk þess sem aukið atvinnuleysi í ríkjum eins og Spáni og Grikklandi geti valdið ófriðarbáli innan álfunnar.

Hundruð andstæðinga evrunnar hafa komið saman í Ósló og tóku þátt í mótmælum í borginni í gærkvöldi. Formaður Nóbelsverðlaunanefndarinnar segir að ekki eigi að líta á veitingu verðlaunanna sem hluta umræðunnar um hvort Norðmenn eigi að ganga í ESB líkt og einhverjir andstæðingar bandalagsins hafa haldið fram í Noregi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert